17/10/2024 Af sambandsþingi í kosningabaráttuSíðustu helgi fór fram 49. sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Á Sambandsþinginu kom saman ungt Framsóknarfólk af öll landinu saman til þess að ræða málefni ungs fólks og rita stefnu Sambandsins. Gunnar Ásgrímsson var þar endurkjörin formaður eftir málefnalega baráttu við Kjartan Helga Ólafsson sem tók sæti í stjórn og ganga þeir því sameinaðir eftir baráttuna til kosninga. Þá var einnig kjörin ný stjórn SUF sem tók strax til starfa þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti ákvörðun sína um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi aðeins nokkrum mínútum eftir þingslit. Gunnar Ásgrímsson endurkjörin Gunnar, er 24 ára Skagfirðingur sem stundar nám í kennslufræðum við Háskóla íslands og starfar samhliða því sem stundakennari í grunnskóla. Hann hefur verið virkur í félagsstarfi flokksins og innan sambandsins síðan 2018, en hann hefur setið í framkvæmdastjórn SUF bæði sem ritari og varaformaður. Málefni og réttindi ungs fólks brenna á Gunnari sem bauð sig á síðasta ári fram til forseta til þess að benda á skekkjur í kröfum sem gerðar eru til slíks framboðs, meðal annars 35 ára aldurstakmarks frambjóðendur þurfa að hafa náð. “Framsókn er öfgalaus en samt róttækur umbótaflokkur sem setur hagsmuni fjölskyldufólks í fyrsta sæti. Við erum að fara inn í kosningar og þarf SUF að vera duglegt í nýliðun og hagsmunastarfi fyrir ungt fólk þegar að kemur að áherslum flokksins fyrir kosningar,“ segir Gunnar. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins og Lilja Alfreðsdóttir varaformaður ávörpuðu þingið ásamt Ásmundi Einari Daðasyni og Jóhanni Friðriki Friðrikssyni þingmönnum flokksins. Ungu Framsóknarfólki gafst þá tækifæri í kjölfarið til þess að eiga við þau samtal og koma sínum málum áleiðis til þeirra. Ekki slæmt veganesti inn í kosningar.
Stefna SUF sem samþykkt var á þinginu verður birt á samfélagsmiðlum SUF og hér á vefnum á næstu dögum. Í nýrri stjórn ungrar Framsóknar eru: Aron Kári Ágústsson Elín Karlsdóttir Heiðdís Geirsdóttir Hrafn Splidt Þorvaldsson Karítas Ríkharðsdóttir Kjartan Helgi Ólafsson Ólöf Rún Pétursdóttir Sæþór Már Hinriksson Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson Skúli Bragi Geirdal Urður Björg Gísladóttir Þórunn Dís Þórunnardóttir Ungu Framsóknarfólki blöskrar ákvörðun formanns Sjálfstæðisflokksins um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi á þessum tímapunkti og leitast við að ganga til kosninga í nóvember. Okkur þykir þetta heigulsháttur, þetta er gert með hagsmuni hans flokks í huga umfram hagsmuni þjóðarinnar.
Það er stór ákvörðun að gefa kost á sér til þess að vera málsvari kjósenda í fjögur ár á þingi og henni fylgir mikil ábyrgð. Hvað þá þegar fólki hlotnast sá heiður að taka þátt í ríkisstjórn þar sem þau hafa frekara tækifæri til þess að móta framtíð þjóðarinnar. Það er sorglegt að forsætisráðherra og samflokksfólk hans taki þeirri ábyrgð ekki alvarlegar en raun ber vitni. Slit á ríkisstjórnarsamstarfi ætti að vera neyðarventill sem er notaður þegar aðstæður skapast þar sem ómögulegt er að halda áfram, ekki björgunarbátur til að hoppa í þegar skoðanakannanir eru flokkum óhagstæðar eða menn þurfa að miðla málum í ríkisstjórnarsamstarfi. Efnahagsmálin eru loksins að komast á réttan kjöl og vextir byrjaðir að lækka. Þá er það gjörsamlega óábyrgt að stefna því í hættu með því að skapa hér pólitíska óvissu. Við hræðumst ekki kosningar og teljum að verk þingmanna og ráðherra Framsóknar tali fyrir sig sjálf. Þessi ályktun var samþykkt af stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna þann 13. október 2024. 11/9/2024 49. Sambandsþing SUF49. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna verður haldið helgina 12-13 október í Héraðsskólanum á Laugarvatni.
Þinggjöld verða 3.000kr, greitt á þinginu sjálfu. Fylgist með á samfélagsmiðlum SUF eftir skráningarblaði fyrir mat og gistingu, sem kemur á næstu dögum. Mikilvægar dagsetningar 12.sep. Síðasti dagur til að skrá sig í flokkinn til að hafa kosningarétt á sambandsþingi 21.sep. Síðasti dagur til að senda inn framboð til formanns ([email protected]) 28.sep. Síðasti dagur til að senda inn lagabreytingatillögu ([email protected]) Hægt er að bjóða sig fram í aðrar stöður (t.d. Stjórn og varastjórn) fram að kosningunum á sunnudeginum 13. október. Dagskrá 49. sambandsþings SUF Laugardagur 12. október 11:00 Þingsetning -Kosning þingforseta -Kosning þingritara -Kosning starfsnefndar 11:15 Skýrsla stjórnar 11:30 Lagabreytingar 12:00 Almennar umræður // Ávörp 13:00 Málefnavinna 16:00 Þinghlé 17:00 - 19:00 Vísindaferð 20:00 Hátíðarkvöldverður & skemmtun // Ávörp Sunnudagur 13.október 10:00 Málefnavinna - áframhald 11:00 Kosningar -Formaður -Stjórn (12) -Varastjórn (12) -Skoðunarmenn reikninga (2) -Varaskoðunarmenn reikninga (2) 12:00 Hádegishlé 12:59 Niðurstöður kosninga 13:00 Málefnavinna - áframhald // Afgreiðsla mála 16:00 Þingslit og heimferð Lög sambandsins má finna á [email protected] 8/11/2023 Norðurlandaráð æskunnar samþykkti sameiginlega ályktun sendinefnd Íslands um að fá handritin heimUrður Björg Gísladóttir og Hrafn Splidt Þorvaldsson, fulltrúar SUF á þingi Norðurlandaráðs ungmenna Íslensku ungliðahreyfingarnar lögðu saman fram ályktun um að fá íslensku handritin aftur heim á þingi Norðurlandaráðs ungmenna. Ályktunin bar heitið „Menningarminjar aftur heim“ og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Í ályktuninni má finna ákalla til meðlima Norðurlandaráðs að skila fornmunum og menningarverðmætum aftur til síns heimalands. Það voru Samband ungra Framsóknarmanna, Samband ungra Sjálfstæðismanna, Ungt Jafnaðarfólk og Ung Vinstri-græn sem stóðu sameiginlega að baki ályktuninni. Rasmus Emborg forseti Norðurlandaráð æskunnar, Hrafn Splidt Þorvaldsson frá Sambandi ungra Framsóknarmanna og Gunnvá Winher frá Framsøkin Ung mældu fyrir ályktuninni í pontu en hana má finna í heild sinni hér að neðan: 24. Menningarminjar aftur heim Samband ungra Framsóknarmanna, Samband ungra Sjálfstæðismanna, Ungt Jafnaðarfólk, Ung Vinstri-græn Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 hófst barátta um að fá forn handrit og skjöl afhent frá Danmörku til Íslands. Fyrrnefnd verk voru framleidd á Íslandi á 13.-16.öld. og flutt út til Danmerkur á 17.-& 18. öldinni. Frá 1928-1997 var fjölda handrita og skjala skilað til Íslands. Þá sérstaklega frá 1971, er 21. Apríl það ár var Konungsbók Eddukvæða og Flateyjarbók skilað til Íslands. Eftir það bárust handritin hægt og rólega til landsins, þangað til 20. Júní 1997. Þá voru Kirkjudagsmál og Stjórn afhent í hátíðarsal Háskóla Íslands, og eru enn í dag seinustu handritin sem voru endurheimt. Baráttan fyrir því að fá “handritin heim” er einungis eitt dæmi af fjölmörgum um fyrrum hjálendu eða nýlenduþjóð sem eru að berjast fyrir því að fá sín menningarverðmæti frá fyrrum nýlenduherrum. Ungt fólk á Norðurlöndum kallar þar af leiðandi eftir því að fyrrum nýlenduþjóðir innan Norðurlandaráðs sýni fordæmi og vinni að því að skila fornminjum og menningarverðmætum til sinna fyrri hjálenda og nýlenda. UNR ályktar að: - Þeir fornmunir og menningarverðmæti sem tekin voru í fortíðinni af meðlimum Norðurlandaráðs verði skilað til síns norræna upprunalands, ef þau óska þess. |