3/11/2022 Þing Norðurlandaráðs æskunnar í HelsinkiLaugardaginn 29. október síðastliðinn var þing Norðurlandaráðs æskunnar (UNR) sett í Helsinki. Gunnar Ásgrímsson, varaformaður, sótti þingið fyrir hönd Sambands ungra Framsóknarmanna.Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka á Íslandi höfðu fyrir ferðina lagt saman fram breytingartillögu á lögum UNR, sem myndi tryggja að öll skjöl á þingum UNR þurfi að þýða á íslensku og finnsku auk skandinavísku. Hingað til hafa Íslendingar, sem voru fljótir að gleyma grunnskóladönskunni, þurft að reiða sig á aðstoð Google translate. Þær ungliðahreyfingar sem lögðu breytinguna fram, auk ungra Framsóknarmanna, voru ungt Jafnaðarfólk, ungir Sjálfstæðismenn og ung Vinstri græn.
Fyrir ári síðan, á þingi UNR í Kaupmannahöfn, hafði ungt Jafnaðarfólk lagt sömu lagabreytingu fram. Þá hlaut hún ekki meirihluta atkvæða, en 2/3 atkvæða þarf til lagabreytinga. Vangaveltur um kostnaðinn voru grundvöllur höfnunarinnar. Eftir þingið ákvað þó nýkjörin forsætisnefnd að hafa prufuverkefni í Helsinki þar sem að hluti af ályktunum sem bárust myndu vera þýdd auk þess að hægt var að senda inn ályktanir á íslensku og finnsku. Þegar lagabreytingar voru til umfjöllunar á þingfundinum fór Gunnar Ásgrímsson með framsögu og las m.a. stuðningsbréf frá Lilju Alfreðsdóttur, menningarmálaráðherra. Íslendingar fóru svo hver á eftir öðrum að tala fyrir mikilvægi þessa jafnréttismáls. Einnig fékkst mikill stuðningur frá Færeyjingum og Norðmönnum, sem við Íslendingar vorum ánægð að sjá. Ekki mátti sjá að margir þorðu að koma upp í pontu og tala gegn þessu mikilvæga jafnréttismáli, en eftir mikla og góða umræðu var svo loks kosið. Breytingin samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta og mun því vera skylda að þinggögn verði þýdd á öllum framtíðar þingum Norðurlandaráðs æskunnar. Í kjölfarið var fagnað að siði heimamanna og farið á karaoke-bar, en þar steig drengjakór Íslandsdeildar á svið. Á sunnudeginum voru teknar fyrir ályktanir sem vinnuhópar höfðu unnið að á laugardeginum. Þar var m.a. tekin umræða um sjálfnægtastig í matvælaframleiðslu. Fulltrúi okkar gat ekki annað en stigið í pontu og talað um mikilvægi þessa góða Framsóknarmáls. Eftir miklar umræður var þinginu slitið og þreytt ungmenning fengu að halda heim á leið eða upp á hótel. Hér má svo sjá nokkrar myndir frá þinginu, meðal annars Íslendingamynd og miðjuflokkamynd. Comments are closed.
|