20/7/2020 Breytingar á stjórnarskráStjórn SUF samþykkti 15. júlí 2020 eftirfarandi umsögn vegna frumvarps um breytingar á stjórnarskrá:
Umsögn vegna frumvarps til stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 15. júlí 2020 Mál nr. 124/2020 Samband ungra Framsóknarmanna krefst þess að kosningaréttur verði veittur við byrjun þess árs sem einstaklingur nær kosningaaldri, en ekki við fæðingardag. Það er ekki lýðræðislegt að neita ungu fólki um kosningarétt eingöngu vegna þess hvenær þau fæðast á árinu. Þau sem fæðast á sama ári eru taldir vera jafningjar í augum samfélagsins. Þau fylgjast að í gegnum grunnskóla, taka lokapróf saman og loks útskrifast svo saman. Samt eru þessir „jafningjar“ ekki jafnir þegar kemur að einum mikilvægasta rétti sem fyrirfinnst í lýðræðisríki, sjálfum kosningaréttinum. Þessi hugmynd, um að kosningaréttur verði miðaður við ár en ekki dag, er ekki ný. Sem dæmi stendur eftirfarandi í 50. gr. norsku stjórnarskrárinnar: „Kosningarétt hafa allir norskir ríkisborgarar, karlar og konur, sem orðnir eru eða verða fullra átján ára á því ári sem kosningar eru haldnar.“ Norðmenn hafa því sýnt gott fordæmi í þessum efnum, og ættum við að taka þá okkur til fyrirmyndar og jafna þannig rétt ungs fólks til þátttöku í kosningum. Samband ungra Framsóknarmanna krefst því að 33. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt, svo þau sem fædd eru á sama ári hafi jafnan rétt til þáttöku í kosningum til Alþingis. Samþykkt af stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna 15. júlí 2020 Hér má sjá umsögnina á PDF-formi. Comments are closed.
|