28/8/2022 Ályktanir 2022Eftirfarandi eru þær ályktanir sem samþykktar voru á 47. sambandsþingi SUF 1. Ungt Framsóknarfólk vill að fæðingarstyrkur námsmanna verði hækkaður til þess að gera aðstæður námsmanna betri. 2. Ungt Framsóknarfólk vill að skimanir fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi verði framkvæmdar reglubundið með sama hætti og þegar er gert fyrir brjósta- og leghálskrabbameini. Þessi tegund krabbameina er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi og ein þriggja tegunda krabbameina (til viðbótar við brjósta- og leghálskrabbamein) sem alþjóða stofnanir mæla með að skimað sé fyrir. 3. Ungt Framsóknarfólk styður tillögur um að lögð verið fram reglugerð um að sveitarfélög taki við ákveðnum fjölda flóttafólks í hlutfalli við íbúafjölda og getu innviða hvers þeirra. Ísland á að veita einstaklingum í leit að alþjóðlegri vernd öruggt skjól. Þá dugar ekki til að skjóta einungis þaki yfir flóttafólk á afmörkuðum svæðum heldur verður að huga að samlögun þess og samfélagsins. Huga verður að því að dreifa búsetu flóttafólks innan sveitarfélaga og milli þeirra og hlúa að innviðum s.s. heilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu, leik- og grunnskólum, löggæslu og sjúkraflutningum svo samfélögin geti tekið vel á móti einstaklingum sem leita hingað skjóls og veitt þeim viðeigandi þjónustu. 4. Ungt Framsóknarfólk vill aukið fjármagn til forvarna gegn sjálfsvígum og stuðning til aðstandenda þeirra sem falla fyrir eigin hendi. 5. Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að lækka fasteignaskatta til að bregðast við hækkandi fasteignamati og fasteignagjöldum sem auka greiðslubyrði heimilanna til muna. 6. Ungt Framsóknarfólk vill að skattþrep tekjuskatts verði endurskoðuð með reglubundnum hætti í samræmi við launaþróun, sem léttir skattbyrði lág- og meðaltekjufólks. 7. Ungt Framsóknarfólk telur að nú þegar stríð geisar í Evrópu hafi fæðuöryggi aldrei verið jafn mikilvægt. Stjórnvöld þurfa að tryggja fæðu- og matvælaöryggi með innlendri matvælaframleiðslu. 8. Ungt Framsóknarfólk telur mikilvægt að sveitafélöginn tryggi máltíðir á skólatíma og að aðgengi barna á leik- og grunnskólastigi sé niðurgreitt í samræmi við tekjur heimilanna. 9. Ungt Framsóknarfólk hvetur til forgangsröðunar í gangnagerð og vegaframkvæmdum um land allt. Ýmsir vegakaflar um landið reynast hreint og beint hættulegir. 10. Ungt Framsóknarfólk hvetur sveitarfélög og vegagerðina til þess að endurskoða snjómokstur á sínu svæði til að bæta þjónustu og auka samstarf. 11. Ungt Framsóknarfólk telur að 1. desember, Fullveldisdagurinn verði gerður að opinberum frídegi. Fyrsti desember er í dag fánadagur, það var á þeim degi sem að Sambandslögin svokölluðu gengu í gildi. Sambandslögin voru vafalítið stærsta skrefið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en í þeim fólst að Danmörk viðurkenndi að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. 12. Ungt Framsóknarfólk leggst gegn banni á bragðbættum nikótínpúðum og rafrettum. Slíkar vörur reynast mörgum hjálplegar við að hætta tóbaksnotkun og reynslan hefur sýnt að forvarnarstarf er öflugasta viðspyrnan gegn því að ungt fólk hefji notkun á nikótín- eða tóbaksvörum. Hvetjum við stjórnvöld því til efldrar forvarnarstarfsemi framar boðum og bönnum. 13. Ungt Framsóknarfólk vill efla og styrkja iðnnám um allt land. Til þess að bæta aðgengi, aðstöðu og fjölbreytileika námsins. Auka þarf framboð til að mæta þeirri gífurlegri eftirspurn eftir iðnnámi sem hefur tekist að mynda á síðustu árum. 14. Ungt Framsóknarfólk vill að tekin verði upp þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur. Comments are closed.
|